Ávarp frá Sigurði Gylfa Magnússyni sem sjórnaði verkefninu Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking, vegna lokaskýrslu Heimsins hnoss til Rannís en hana má nálgast hér.
Kæru vinir.
Í morgunsárið (föstudaginn 26. janúar 2024) sendi ég inn lokaskýrslu okkar fyrir Heimsins hnoss. Það er mikill léttir og stór áfangi. Niðurstaðan er vægast sagt sláandi. Í skýrslunni kemur eftirfarandi fram:
Eins og fram kom hér að framan þá lögðum við upp með það að birta á tímabilinu eitt ritgerðarsafn á íslensku og 10–12 greinar sem birtust í erlendum tímaritum. Niðurstaðan varð allt önnur. Á vegum verkefnisins komu út 11 bækur; sex sem hafa verið gefnar út erlendis, fimm hér á landi. Hluti af þessum 11 bókum eru fjögur ritgerðarsöfn sem eru hvert með 15 til 18 ritgerðir; þrjú eru gefin út á okkar vegum en eitt er gefið út af samstarfsaðilum þar sem hluti vísindamanna í Heimsins hnoss tóku þátt í að skapa það. Greinar sem hafa birst í tímaritum og bókum eru 18 en þar að auki eru greinarnar sem hafa birst í ofantöldu ritgerðarsöfnum. Það má því segja að ritgerðarfjöldinn sem unninn hefur verið á vegum verkefnisins sé margfaldur á við það sem lagt var upp með. Greinarnar eru því allt í allt 71 talsins. (Lokaskýrsla til Rannís, bls 2 -3)
Þá voru búin til nokkur gagnasöfn, sýning sett upp í Þjóðminjasafni, þrjár doktorsritgerðir, þrjár MA ritgerðir og á áttunda tug fyrirlestrar fluttir af okkur á þessu fimm ára tímabili. Það er eiginlega ekki hægt annað en að undrast þessa niðurstöðu, svo mögnuð er hún.
Hamingjóskir til okkar allra og takk fyrir frábært samstarf.
Velkomin á vefsvæði öndvegisverkefnisins Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking sem fékk þriggja ára styrk frá Rannsóknarmiðstöð Íslands (RANNÍS) árið 2018. Verkefninu stjórnar Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.
Rannsóknarverkefnið samanstendur af framlagi fræðimanna á sviði sagnfræði, efnismenningarfræða (fornleifafræði og mannfræði) sem og safnafræða. Þungi rannsóknarinnar verður tvíþættur: Í fyrsta lagi verður áhersla lögð á fyrirbærið safn (“the archive”); hvernig við varðveitum hugmyndina um liðna tíð, hvernig fólk og umhverfi þess er skráð og hvernig gerð er grein fyrir því í sögulegum heimildum. Í öðru lagi verður hugað að því hvernig söfn hafa verið nýtt í vísindum á fjölbreyttum sviðum akademískra rannsókna. Þar verður áherslan fyrst og fremst á efnismenningu; hvaða hluti átti fólk samkvæmt ólíkum „söfnum“ og hvernig voru þeir nýttir? Það þarf að ræða hvernig hlutirnir voru búnir til, hvernig fólk eignaðist þá, hvernig þeir voru notaðir og hvað fólki (eigendunum og öðrum) fannst um þá – um hugmynda- og hugarfarslegt gildi þeirra – og hvort þeir öðluðust í hverdagslífinu sérstaka merkingu. Ólíkum „söfnum“ verður teflt saman til þess að fá tækifæri til að skoða hugmyndir manna um fortíðina út frá nýju sjónarhorni og gagnrýna um leið hvernig fræðaheimurinn hefur unnið sín verk. Hugmyndin að baki þessari nálgun er að þekking á hlutveruleika hversdagslífs sé undirstaða aukins skilnings á því hvernig fólk „byggði“ líf sitt og skapaði sér ímynd (identity), og hvernig efnismenning og hlutir daglegs lífs stuðluðu að þeirri ímyndar og samfélagssköpun.
Nákvæmar opinberar uppskriftir yfirvalda á dánarbúum fólks og heimilum sem þurfti að gera upp vegna ýmissa ástæða verða lögð til grundvallar þessu verkefni, en um er að ræða um 25 þúsund uppskriftir frá 17. öld og fram á þá 20. Gerð verður markviss úttekt á uppskriftarbókum sýslumanna og þeim teflt saman við gripi sem eru geymdir í Þjóðminjasafni Íslands og víðar. Aðrir heimildaflokkar verða einnig undir en þessir tveir eru þó viðamestir. Þessi rannsóknarvinnu verður umfangsmikil og það verður mjög forvitnilegt að nýta efni frá þessum heimildarflokkum um efnismenning til þess að átta sig á hvernig menningararfurinn hafi orðið til.
Fjölmargar spurningar koma í hugan þegar litið er til uppskriftanna, svo sem hvernig lýsa þær efnahagi þjóðar? Hvaða samræmi er á milli uppskriftanna og safnakosts íslenskra minjasafna? Hvernig falla uppskriftirnar að fræðilegri orðræðu um efnisveruleika eða æviferli hluta? Hvernig þjóðfélags- og persónugervi birtist okkur í uppskriftunum? Hvernig endurspegla uppskriftirnar sambærileg gögn annars staðar í veröldinni? Hvaða upplýsingar um huglægt og efnahagslegt verðmæti hluta má vinna úr uppskriftunum? Þannig má lengi telja en hugmyndir vísindamannanna sem standa að þessari umsókn er að nýta þessa tvo gagnagrunna til að kanna hversdagslíf fólks á nýjan og spennandi hátt – tengja saman hlutveruleikan, tilfinningarlíf og hverdagslega reynslu fólks á 19. og fram á 20. öld.