Ólöf Gerður Sigfússdóttir

14. október 2022

Föstudaginn 14. október varði Ólöf Gerður Sigfúsdóttir doktorsritgerð sína Söfn sem rannsóknastofnanir: áskoranir og tækifæri (Museum-Based Research: Museological, Institutional, Curatorial and Epistemological Challenges). Vörnin fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi var dr. Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor við Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru dr. Peter Bjerregaard, sýningastjóri við Danska tækniminjasafnið í Kaupmannahöfn, og dr. Þóra Pétursdóttir, dósent við Oslóarháskóla.

Andmælendur voru dr. Mattias Bäckström, dósent við Norska vísinda- og tækniháskólann í Þrándheimi, og dr. Carolina Rito, prófessor við Coventry háskóla í Bretlandi.

Um doktorsritgerðina

Doktorsritgerð Ólafar Gerðar beinir sjónum að rannsóknahlutverki opinberra safna, en rannsóknastarf safna er gjarnan hulið safngestum og fellur oft í skuggann af öðrum starfsþáttum eins og söfnun, skráningu, varðveislu, miðlun og fræðslu. Þannig miðar verkefnið að því að draga fram rannsóknir sem einn af grunnþáttum faglegs safnastarfs og skapa gagnrýna umræðu um hvað felst í því að stunda rannsóknir á safni. Samkvæmt alþjóðasamfélaginu eru rannsóknir hluti af þeim formlegu viðmiðum sem eru gerð til safna um faglegt starf, og hér á landi eru rannsóknir hluti af skilyrðum fyrir því að safn hljóti opinbera viðurkenningu ráðuneytis. En eins og verkefnið hefur leitt í ljóst eru rannsóknir óljósasti starfsþátturinn og jafnframt sá sem flest söfn eiga í hvað mestum erfiðleikum með að uppfylla. Mörg söfn, hvort sem er hér á landi eða erlendis, segjast ófær um að sinna þessum grunnþætti vegna skorts á starfsmönnum, tíma og fjármagni, meðan önnur líta á rannsóknir sem innbyggðan hluta af öllu því daglega starfi sem fer fram á söfnum. Þessi tvö andstæðu sjónarmið skapa andrúmsloft óvissu kringum rannsóknastarf safna, sem aftur á móti leiðir til óræðni um hvað telst til rannsókna á söfnum og hvað ekki.

Dokstorsritgerðin varpar ljósi á þessa óræðni með því að kanna hvernig þekking er sköpuð og henni miðlað á söfnum. Ritgerðin er byggð á fjórum ritrýndum tímaritsgreinum sem samanlagt móta mynd af safnarannsóknum gegnum fjögur sjónarhorn: hið safnafræðilega, hið stofnanalega, hið sýningarstjórnunarlega og hið þekkingarfræðilega. Hvert sjónarhorn tekst á við tilteknar rannsóknarspurningar og notast við fjölbreyttar heimildir, gögn og aðferðafræðilega nálgun, þar á meðal tvær tilviksrannsóknir sem unnar voru á Íslandi. Kenningaramminn er sóttur úr safnafræði, sýningarstjórnunarfræðum, listrannsóknum og að einhverju leyti úr mannfræði. Miðlægt í gegnum verkefnið  er hugtakið „rannsókn“ eins og það birtist á háskólasviðinu annarsvegar og hinsvegar á safnasviðinu, og því lýst hvernig það ferðast á milli þessara tveggja sviða. Því má segja að verkefnið sé rannsóknapólitískt í grunninn, en eitt af markmiðum þess er að víkka út hugmyndina um safnarannsóknir (e. museum-based research). Þá eru þekkingarfræðileg einkenni safnarannsókna reifuð í því markmiðið að skýra framlag þeirra til þekkingarsköpunar, og því haldið fram að einkennin séu einstök meðal annarra fræðasviða.

Verkefnið sýnir fram á að þrátt fyrir allar þær áskoranir sem felast í rannsóknahlutverki safna, þá eru safnarannsóknir svið fjölmargra tækifæra. Með því að horfa á þær ólíku tegundir rannsókna sem stundaðar eru á söfnum eru færð rök fyrir nauðsyn þess að víkka út viðteknar hugmyndir um hvað felst í rannsókn og skapa rými fyrir aðrar tegundir rannsókna en eingöngu hið hefbundna akademíska, eða vísindalega, rannsóknaform.